Útgáfa

Sem heildarsamtök atvinnulífsins starfar Viðskiptaráð að hagsmunum allra sem stunda viðskipti. Þá vinnur ráðið einnig að sértækum málum í þágu aðildarfélaga sinna. Þessu hlutverki sinnir Viðskiptaráð meðal annars með því að beita sér fyrir hagfelldu laga- og regluverksumhverfi og vönduðum stjórnsýsluháttum opinberra aðila.

Starfsfólk Viðskiptaráðs tekur þátt í opinberri umræðu með greinaskrifum og þátttöku í sjónvarps- og útvarpsþáttum þegar málefni viðskiptalífsins eru til umræðu. Í málefnastarfi sínu miðar Viðskiptaráð að því að bæta rekstrarumhverfi íslensks viðskiptalífs og styrkja þannig forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Alla útgáfu Viðskiptaráðs má finna hér.

Umsagnir til þingnefnda og ráðuneyta

Á ári hverju veitir ráðið umsagnir um tugi lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna sem lagðar eru fram á Alþingi og í Samráðsgátt stjórnvalda. Í flestum tilfellum er um að ræða frumvörp sem varða viðskiptalífið með beinum eða óbeinum hætti. Starfsmenn Viðskiptaráðs eru einnig reglulega boðaðir á fundi með þingnefndum til að fjalla um afstöðu ráðsins til ýmissa mála.

Til viðbótar við lög og þingsályktunartillögur fylgist Viðskiptaráð með breytingum á reglugerðum og veitir umsagnir til ráðuneyta ef svo ber undir. Með tilkomu Samráðsgáttarinnar hefur það færst í aukana að áform um lagasetningu og fyrstu drög að frumvörpum séu birt til rýni fyrir hagsmunaaðila. Viðskiptaráð hefur nýtt sér það í miklum mæli, enda heppilegt að sjónarmið hagsmunaaðila komi fram sem fyrst í löggjafarferlinu og hefur reynst mikilvægt í framkvæmd. 

Þá hafa mörg mikilvæg mál komið á borð Viðskiptaráðs að frumkvæði aðildarfélaga og eru félagar hvattir til að hafa samband við starfsfólk Viðskiptaráðs hafi þeir skoðanir á regluverki, sérstaklega ef það er í mótun hjá ráðuneytum eða til umfjöllunar á Alþingi.

Við ritun umsagna hefur Viðskiptaráð það að leiðarljósi að verja mestum kröftum í mál sem hafa mikil áhrif eða snerta breiðan hóp aðildarfélaga ráðsins. Þar sem málefnin sem Viðskiptaráð lætur sig varða eru af mjög fjölbreyttum toga leitar ráðið reglulega til félaga til að fá afstöðu þeirra til ýmissa mála.

Icelandic Economy

Eitt af verkefnum Viðskiptaráðs er að annast upplýsingagjöf til erlendra aðila um efnahagsþróun á Íslandi. Frá 2008 hefur því hlutverki fyrst og fremst verið sinnt með útgáfu skýrslunnar The Icelandic Economy.

Skýrslan er nokkuð heildstæð úttekt á íslensku efnahagslífi og er tilkynning um hverja útgáfu send víða – m.a. til fyrirtækja, opinberra stofnana og félagasamtaka víðsvegar um allan heim. Þá er skýrslan aðgengileg bæði á íslenskum vef ráðsins, vi.is, sem og á enska vefnum chamber.is.

Undanfarin ár hefur The Icelandic Economy verið gefið út árlega en um mitt ár 2021 var ákveðið að stytta og einfalda skýrsluna en um leið að fjölga útgáfum í fjórar á ári.

Skýrslur, greiningar og önnur útgáfa

Til viðbótar við umsagnir gefur Viðskiptaráð reglulega út ýmsar skýrslur og greiningar um málefni viðskiptalífsins. Hér má sjá yfirlit yfir nokkrar af útgáfum Viðskiptaráðs á síðustu tveimur árum.

Yfirlit yfir skattahækkanir og lækkanir

Viðskiptaráð hefur gefa út yfirlit yfir skattabreytingar milli ára síðastliðin 14 ár. Áramótin 2019-2020 tóku í gildi 24 skattabreytingar. Þar af voru skattahækkanir 18 og skattalækkanir 6. Ný þrepaskipting tekjuskatts tók gildi fyrir einstaklinga og bankaskattur á fjármálafyrirtæki var lækkaður. Fyrir hverja skattalækkun bætast við þrjár til hækkunar. Við lok hins eftirminnilega árs 2020 tóku gildi 18 skattahækkanir og 13 skattalækkanir.

Haglíkan í skugga COVID-19

Viðskiptaráð setti fram einfalt sviðsmyndalíkan af þróun landsframleiðslu til ársins 2030.

Sviðsmyndagreining Viðskiptaráðs og SA

VÍ og SA voru í nánu samstarfi er COVID19 stóð hæst og gáfu út sviðsmyndagreiningu þar sem þróun efnahagsmála árið 2020 var metin.

Samkeppnishæfni Íslands kortlögð

Viðskiptaráð stendur árlega fyrir úttekt á samkeppnishæfni Íslands í samstarfi við svissneska viðskiptaháskólann IMD. Úttektin samanstendur annars vegar af stjórnendakönnun sem er send á forstöðumenn allra aðildarfélaga Viðskiptaráðs og hins vegar af gagnasöfnun sem samanstendur af um 400 hagvísum sem eru bornir saman við önnur ríki í úttektinni.

Niðurstöður úttektarinnar eru birtar í júní ár hvert og undanfarin ár hefur Viðskiptaráð haldið opinn fund um niðurstöðurnar í samstarfi við Íslandsbanka. Árleg úttekt IMD á samkeppnishæfni þjóða hefur reynst dýrmæt við að beina umræðu um samkeppnishæfni Íslands á rétta braut og mynda þannig samstöðu um þær aðgerðir sem eiga heima efst á forgangslista stjórnvalda þegar kemur að umbótum.

Árið 2020 lækkaði Ísland um eitt sæti á listanum og sat í 21. sæti, mitt á milli Kína og Nýja-Sjálands. Ári síðar reyndist Ísland hafa staðið í stað og var aftur í 21. sæti af 64 en hafði þá ekki mælst jafn langt á eftir Norðurlöndunum í átta ár.

Launakostnaður á Íslandi og skaðsemi atvinnuleysis

Á haustmánuðum 2020 ríkti mikil óvissa og þröng staða í kjaramálum, sem bætti olíu á eld COVID-19 kreppunnar. Eitt mikilvægasta verkefnið sem blasti þá við var að sporna gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum. Bæði þannig að fyrirtæki gætu haldið starfsfólki í vinnu og ráðið nýtt fólk þegar atvinnuleysi var í hæstu hæðum. Viðskiptaráð tók því saman sex atriði til að varpa ljósi á stöðuna sem upp var komin.

Hið opinbera: Meira fyrir minna

Viðskiptaráð gaf út ritið Hið opinbera, þar sem rýnt var í hlutverk, rekstur og störf hins opinbera. Ljóst er að minna verður til skiptanna hér á landi á næstunni og áfram munu heyrast háværar raddir um aukin útgjöld úr ríkissjóði. Svigrúm til skattahækkana er lítið og að mati Viðskiptaráðs er aukin framleiðni í rekstri hins opinbera lykilatriði svo að opinbera fjármál verði sjálfbær, en hið opinbera hefur dregist aftur úr í framleiðni á undanförnum árum.

Hraðari viðspyrna með erlendri fjárfestingu

Verulega hefur dregið úr erlendri fjárfestingu á síðustu árum og hefur fjárfesting almennt leitað frá landinu. Til mikils er að vinna að snúa þróuninni við. Til þess þarf að kortleggja og draga úr beinum og óbeinum hindrunum eftir fremsta megni, en einnig tryggja fyrirsjáanlegt og gott rekstrarumhverfi. Viðskiptaráð tók því saman nokkrar tillögur sem geta stuðlað að öflugri erlendri fjárfestingu hér á landi.

Hvar er kaup máttur?

Viðskiptaráð rýndi í kaupmátt og hagsæld. Ísland er vissulega dýrt en tekjurnar eru líka með þeim hæstu svo að kaupmáttur var sá fjórði mesti í Evrópu árið 2019.

Fjárfest í samvinnu

Mikil tækifæri eru fólgin í aðkomu einkaaðila og lífeyrissjóða að kraftmeiri innviðauppbyggingu hér á landi. Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting getur gegnt lykilhlutverki í að stytta atrennuna inn í nýtt hagvaxtarskeið.

Hvers vegna skiptir ábyrg hagstjórn máli?

Viðskiptaráð kynnti nýtt haglíkan sem sýnir meðal annars hvers vegna launaþróun á Íslandi hefur sögulega verið ósjálfbær.

Alltaf á þolmörkum?

Viðskiptaráð gaf út kynningu þar sem fjallað var um stöðu mála og framtíðarhorfur í heilbrigðismálum. Einkum var horft til þeirra áskorana sem framundan eru og möguleika á umbótum í kerfinu, ekki síst hvað rekstur þess varðar.

Auknar ráðstöfunartekjur í heimsfaraldri

Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar og spádóma um aukinn ójöfnuð í heimsfaraldri eru litlar sem engar vísbendingar um að ójöfnuður fari vaxandi. Síðustu ár hefur tekjujöfnuður heldur aukist en stóð nokkurn veginn í stað árið 2020. Kynbundinn tekjumunur hefur ekki minnkað jafnmikið í 11 ár. Þá hefur síðustu fimm ár kaupmáttur elstu aldurshópana aukist mest.

Engar tekjur og endalaust útgjöld? Greining á loforðum flokkanna

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð tóku saman helstu breytingar á ríkisfjármálum sem stefnur stjórnmálaflokkanna fela í sér. Útgjaldaloforð voru fimmfalt fleiri en tekjuloforð og samtökin áætluðu að afkoma ríkissjóðs gæti versnað um allt að 250 milljarða.

Kjósendur voru skarpari en stjórnmálamenn

Viðskiptaráð gaf út staðreyndapróf fyrir fimm efstu frambjóðendur á listum flokka í alþingiskosningum. Síðar gafst kjósendum tækifæri á að spreyta sig á sömu könnun og kanna hvort þeir væru skarpari en hinn meðalframbjóðandi. Rúmlega 2.000 kjósendur tóku þátt og reyndust þeir á endanum skarpari en stjórnmálamenn.

Hvað er í alvörunni að gerast á fasteignamarkaði?

Viðskiptaráð tók saman hvað hefur verið að gerast á fasteignamarkaði að undanförnu, setti spár í samhengi og skoðaði hátíðnigögn.

Laglegt regluverk óskast

Viðskiptaráð hvatti næstu ríkisstjórn til að setja raunverulegan kraft í einföldun regluverks og framkvæma allsherjarátak.

Hversu mikil er efnahagsleg eymd?

Viðskiptaráð gaf lesendum færi á að stilla upp forsendum eftir eigin höfði og sjá hvernig þeirra eymdarvísitala hefur þróast síðustu áratugi.

Verðmætasköpun er forsenda velferðar

Í aðdraganda alþingiskosninga birti Viðskiptaráð yfirlit yfir þau atriði sem ráðið og aðildarfélagar þess töldu mikilvægt að lögð yrði áhersla á í störfum ríkisstjórnar á nýju kjörtímabili. 

Er stórtækur atvinnurekstur hins opinbera náttúrulögmál?

Framleiðnihópur Viðskiptaráðs lagði mat á umsvif hins opinbera og atvinnureksturinn sem það stundar. Sambærileg greining á atvinnurekstri hins opinbera var framkvæmd árið 2016 og var því einnig sérstaklega horft á þróunina frá þeim tíma.

Hvernig eru mínar tekjur?

Viðskiptaráð tók saman stutta greiningu á tekjum og tekjudreifingu auk þess að setja í loftið reiknivél þar sem hægt er að bera eigin tekjur saman við tekjur annarra.