Útgáfa

Sem heildarsamtök atvinnulífsins starfar Viðskiptaráð að hagsmunum allra sem stunda viðskipti. Þá vinnur ráðið einnig að sértækum málum í þágu aðildarfélaga sinna. Þessu hlutverki sinnir Viðskiptaráð meðal annars með því að beita sér fyrir hagfelldu laga- og regluverksumhverfi og vönduðum stjórnsýsluháttum opinberra aðila.

Starfsfólk Viðskiptaráðs tekur þátt í opinberri umræðu með greinaskrifum og þátttöku í sjónvarps- og útvarpsþáttum þegar málefni viðskiptalífsins eru til umræðu. Í málefnastarfi sínu miðar Viðskiptaráð að því að bæta rekstrarumhverfi íslensks viðskiptalífs og styrkja þannig forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Alla útgáfu Viðskiptaráðs má finna hér.

Umsagnir til þingnefnda og ráðuneyta

Á ári hverju veitir ráðið umsagnir um tugi lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna sem lagðar eru fram á Alþingi og í Samráðsgátt stjórnvalda. Í flestum tilfellum er um að ræða frumvörp sem varða viðskiptalífið með beinum eða óbeinum hætti. Starfsmenn Viðskiptaráðs eru einnig reglulega boðaðir á fundi með þingnefndum til að fjalla um afstöðu ráðsins til ýmissa mála.

Til viðbótar við lög og þingsályktunartillögur fylgist Viðskiptaráð með breytingum á reglugerðum og veitir umsagnir til ráðuneyta ef svo ber undir. Með tilkomu Samráðsgáttarinnar hefur það færst í aukana að áform um lagasetningu og fyrstu drög að frumvörpum séu birt til rýni fyrir hagsmunaaðila. Viðskiptaráð hefur nýtt sér það í miklum mæli, enda heppilegt að sjónarmið hagsmunaaðila komi fram sem fyrst í löggjafarferlinu og hefur reynst mikilvægt í framkvæmd. 

Þá hafa mörg mikilvæg mál komið á borð Viðskiptaráðs að frumkvæði aðildarfélaga og eru félagar hvattir til að hafa samband við starfsfólk Viðskiptaráðs hafi þeir skoðanir á regluverki, sérstaklega ef það er í mótun hjá ráðuneytum eða til umfjöllunar á Alþingi.

Við ritun umsagna hefur Viðskiptaráð það að leiðarljósi að verja mestum kröftum í mál sem hafa mikil áhrif eða snerta breiðan hóp aðildarfélaga ráðsins. Þar sem málefnin sem Viðskiptaráð lætur sig varða eru af mjög fjölbreyttum toga leitar ráðið reglulega til félaga til að fá afstöðu þeirra til ýmissa mála.

Icelandic Economy

Eitt af verkefnum Viðskiptaráðs er að annast upplýsingagjöf til erlendra aðila um efnahagsþróun á Íslandi. Frá 2008 hefur því hlutverki fyrst og fremst verið sinnt með útgáfu skýrslunnar The Icelandic Economy

Skýrslan er nokkuð heildstæð úttekt á íslensku efnahagslífi og er tilkynning um hverja útgáfu send víða – m.a. til fyrirtækja, opinberra stofnana og félagasamtaka víðsvegar um allan heim. Þá er skýrslan aðgengileg bæði á íslenskum vef ráðsins, vi.is, sem og á enska vefnum chamber.is. 

Undanfarin ár hefur The Icelandic Economy verið gefið út árlega en um mitt ár 2021 var ákveðið að stytta og einfalda skýrsluna en um leið að fjölga útgáfum í fjórar á ári. Undir lok árs 2023 var svo ákveðið að gefa skýrsluna út hálfsárslega, eina að vori og aðra að hausti til. 

Skýrslur, greiningar og önnur útgáfa

Til viðbótar við umsagnir gefur Viðskiptaráð reglulega út ýmsar skýrslur og greiningar um málefni viðskiptalífsins. Hér má sjá yfirlit yfir nokkrar af útgáfum Viðskiptaráðs á síðustu tveimur árum.

Yfirlit yfir skattahækkanir og lækkanir

Viðskiptaráð hefur gefa út yfirlit yfir skattabreytingar milli ára síðastliðin 16 ár. Frá árinu 2007 til 2023 hefur verið gerð 391 breyting á skattkerfinu og skiptast breytingarnar í 293 skattahækkanir en einungis 93 lækkanir. Það þýðir að fyrir hverja skattalækkun hafa skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum.  

Orkulaus(nir)

Í tengslum við Viðskiptaþing árið 2023 gaf Viðskiptaráð út skýrslu tengda orkumálum, sem var viðfang Viðskiptaþingsins það árið. Í skýrslunni var fjallað um stöðuna í orkumálum hérlendis, það sem vel hefur verið gert að undanförnu og þau tækifæri sem blasa við, en einnig hindranir sem íslenskt samfélag og atvinnulíf stendur frammi fyrir. 

Í skýrslu Viðskiptaþings má lesa nánar um þær leiðir sem standa okkur til boða og kosti og galla ólíkra sviðsmynda með tilliti til umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra áhrifa. Í skýrslunni er ennfremur fjallað um nauðsynlegar úrbætur á umgjörð orkumála hérlendis. 

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Sumarið 2023 gaf Viðskiptaráð út greiningu á innleiðingu sjálfbærniregluverks Evrópusambandsins. Hluti regluverksins hefur verið innleiddur með meira íþyngjandi hætti hér á landi en þörf krefur og leiðir greiningin m.a. í ljós að íslensk fyrirtæki búa við meiri kostnað en fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum vegna þessa. 

Áætlað er að það hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna frá árinu 2016 að búa við meira íþyngjandi regluverk um ófjárhagslegar upplýsingar. Hvorki var fjallað sérstaklega um það við innleiðinguna að gildissviðið væri víðtækara, né hver möguleg áhrif þess væru, en Viðskiptaráð hefur bent á ófá dæmi um það að íslensk stjórnvöld innleiði EES-reglur með meira íþyngjandi hætti án nokkurs rökstuðnings eða mats á áhrifum. 

Í framhaldinu af útgáfunni fjallaði Viðskiptaráð í auknum mæli um svokallaða gullhúðun EES regluverksins og fékk það í kjölfarið mikla umfjöllun í fjölmiðlum, hjá þingmönnum sem og öðrum hagsmunasamtökum. Í kjölfarið skipaði utanríkisráðherra starfshóp sem falið var að vinda ofan af íþyngjandi EES innleiðingum og situr María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, í hópnum sem fulltrúi Viðskiptaráðs og atvinnulífsins. 

Stuðningsstuðull atvinnulífsins

Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hið opinbera geti veitt landsmönnum nauðsynlega þjónustu og staðið undir innviðum og opinberum kerfum, svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingum. Styrk hagkerfisins til að standa undir þessari nauðsynlegu þjónustu má meta með stuðningsstuðli atvinnulífsins en hann mælir hlutfallið milli starfsfólks í einkageira og annarra íbúa landsins.  

Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði annað árið í röð eftir að hafa hækkað samfellt í fjögur ár. Stuðullinn sýnir að fyrir hverja 10 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum árið 2022 voru 13 sem gerðu það ekki, þ.e. voru ýmist í opinberum störfum, í námi, atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar, t.d vegna aldurs. 

Tilgangur stuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst 2011, er að varpa ljósi á hvert jafnvægið er á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. 

Samkeppnishæfni Íslands

Viðskiptaráð stendur árlega fyrir úttekt á samkeppnishæfni Íslands í samstarfi við svissneska viðskiptaháskólann IMD. Úttektin samanstendur annars vegar af stjórnendakönnun sem er send á forstöðumenn allra aðildarfélaga Viðskiptaráðs og hins vegar af gagnasöfnun sem samanstendur af um 400 hagvísum sem eru bornir saman við önnur ríki í úttektinni. 

Niðurstöður úttektarinnar eru birtar í júní ár hvert og undanfarin ár hefur Viðskiptaráð haldið opinn fund um niðurstöðurnar í samstarfi við Arion og Landsbankann. Árleg úttekt IMD á samkeppnishæfni þjóða hefur reynst dýrmæt við að beina umræðu um samkeppnishæfni Íslands á rétta braut og mynda þannig samstöðu um þær aðgerðir sem eiga heima efst á forgangslista stjórnvalda þegar kemur að umbótum. 

Síðasta áratug hefur samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi en fyrir áratug síðan var Ísland tíu sætum neðar. Mestar framfarir á þessum tíma hafa orðið í skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegum innviðum. 

Ísland stendur í stað í 16. sæti í árlegri samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2023. Í niðurstöðum sömu úttektar árið 2022 hafði samkeppnishæfni landsins aukist og færðist Ísland þá upp um fimm sæti, úr 21. sæti í það sextánda. Íslendingar reka enn lestina þegar horft er til Norðurlandanna en Danmörk hreppir fyrsta sæti á heimsvísu, annað árið í röð. 

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð útbjó reiknivél sem gerði öllum kleift að áætla hvernig verðbólga hafði ólík áhrif á hvern og einn. Útgáfan var með það fyrir augum að auka skilning á verðbólgumælingum og orsökum verðbólgu.

Vatnaskil á vinnumarkaði

Samhliða Viðskiptaþingi árið 2022 gaf ráðið út skýrsluna Tímarnir breytast og vinnan með - Vatnaskil á vinnumarkaði.Í skýrslunni er stiklað á stóru um þau vatnaskil sem eru að verða á vinnumarkaðnum um þessar mundir. Áhrifaþættir umbreytinganna eru skoðaðar í kjölinn og lagðar fram tillögur til úrbóta. Tillögur Viðskiptaráðs snéru að bættu umhverfi á vinnumarkaði og hvernig atvinnulífinu getur verið skapað hagfelldara umhverfi sem stuðli að aukinni verðmætasköpun og þar með hagsæld.

Staðreynd um launaþróun

Viðskiptaráð tekur virkan þátt í opinberri umræðu. Í tengslum við kjaraviðræður undanfarin ár hefur Viðskiptaráð gefið út staðreyndir tengdar títt ræddum málefnum í hverri kjaralotu. Í einni voru fullyrðingar um svigrúm til launahækkana sem að mati Viðskiptaráðs fólust í ómálefnaleg rök. Sú staðreynd bar titilinn „Vill Efling lækka laun?“

Umsögn um fjárlagafrumvarp 2024

Viðskiptaráð Íslands vann að fjölmörgum umsögnum undanfarin tvö ár. Einn hornsteinn í því starfi er árleg umsögn ráðsins um fjárlagafrumvarp sem fer iðulega fram að hausti ár hvert. Viðskiptaráð fagnaði því að áhersla var lögð á aukið aðhald ríkisfjármála en taldi aftur á móti að stíga þurfi stærri skref til að draga úr þenslu, ná verðbólguhorfum niður. Fáheyrður útgjaldavöxtur undanfarinna ára er ekki genginn til baka og tekjustofnar ríkissjóðs hafa styrkst umfram það sem vænta mátti. Viðskiptaráð telur því nærtækast að frekara aðhald sé útfært á útgjaldahlið ríkisfjármálanna.