Starfsfólk Viðskiptaráðs tekur þátt í opinberri umræðu með greinaskrifum og þátttöku í sjónvarps- og útvarpsþáttum þegar málefni viðskiptalífsins eru til umræðu. Í málefnastarfi sínu miðar Viðskiptaráð að því að bæta rekstrarumhverfi íslensks viðskiptalífs og styrkja þannig forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Alla útgáfu Viðskiptaráðs má finna hér.
Umsagnir til þingnefnda og ráðuneyta
Á ári hverju veitir ráðið umsagnir um tugi lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna sem lagðar eru fram á Alþingi og í Samráðsgátt stjórnvalda. Í flestum tilfellum er um að ræða frumvörp sem varða viðskiptalífið með beinum eða óbeinum hætti. Starfsmenn Viðskiptaráðs eru einnig reglulega boðaðir á fundi með þingnefndum til að fjalla um afstöðu ráðsins til ýmissa mála.
Til viðbótar við lög og þingsályktunartillögur fylgist Viðskiptaráð með breytingum á reglugerðum og veitir umsagnir til ráðuneyta ef svo ber undir. Með tilkomu Samráðsgáttarinnar hefur það færst í aukana að áform um lagasetningu og fyrstu drög að frumvörpum séu birt til rýni fyrir hagsmunaaðila. Viðskiptaráð hefur nýtt sér það í miklum mæli, enda heppilegt að sjónarmið hagsmunaaðila komi fram sem fyrst í löggjafarferlinu og hefur reynst mikilvægt í framkvæmd.
Þá hafa mörg mikilvæg mál komið á borð Viðskiptaráðs að frumkvæði aðildarfélaga og eru félagar hvattir til að hafa samband við starfsfólk Viðskiptaráðs hafi þeir skoðanir á regluverki, sérstaklega ef það er í mótun hjá ráðuneytum eða til umfjöllunar á Alþingi.
Við ritun umsagna hefur Viðskiptaráð það að leiðarljósi að verja mestum kröftum í mál sem hafa mikil áhrif eða snerta breiðan hóp aðildarfélaga ráðsins. Þar sem málefnin sem Viðskiptaráð lætur sig varða eru af mjög fjölbreyttum toga leitar ráðið reglulega til félaga til að fá afstöðu þeirra til ýmissa mála.