Gerðardómur Viðskiptaráðs

Á vegum Viðskiptaráðs Íslands starfar sérstakur gerðardómur (e. The Nordic Arbitration Centre). Með notkun gerðardómsins geta aðilar fengið leyst úr ágreiningi með skjótum og öruggum hætti.

Gerðardómur Viðskiptaráðs Íslands (GVÍ) er ein elsta gerðardómsstofnun landsins. Dómurinn var stofnaður árið 1920 en var lagður niður árið 1930. Hann var síðan endurvakinn árið 1980 þar sem stjórn Viðskiptaráðs (þá Verzlunarráð) taldi nauðsynlegt að til væri dómur sem gæti skorið úr ágreiningsefnum í viðskiptum með skjótum hætti.

Fyrir Gerðardómi Viðskiptaráðs gilda málsmeðferðarreglur sem bæði eru til í íslenskri og enskri útgáfu. Í þeim er að finna ítarleg ákvæði um atriði er tengjast gerðarmeðferð, skipun gerðamanna, kostnað gerðarmeðferðar o.fl. Framkvæmdastjóri GVÍ er lögfræðingur Viðskiptaráðs, María Guðjónsdóttir.

Úrlausn ágreinings fyrir Gerðardómi Viðskiptaráðs er á höndum gerðardómsmanna sem starfa í samræmi við reglur Gerðardómsins eða aðrar reglur sem málsaðilar hafa samið um. Stjórn Gerðardómsins tekur afstöðu til þess hvort gerðarsamningur sé til staðar milli málsaðila. Sé slíkum samningi til að dreifa er málinu vísað til gerðardómsmanna.

Aðilum er heimilt að semja sérstaklega um skipan og fjölda gerðardómsmanna en hafi ekki verið um annað samið skulu þeir vera þrír. Meginreglan er sú að gerðardómsmenn hafi sex mánuði frá því gerðarmeðferð hefst til að kveða upp endanlega úrlausn í máli en málsaðilum er einnig heimilt að semja um að aðrir tímafrestir skuli gilda.

Dómur Gerðardóms Viðskiptaráðs er endanlegur og bindandi fyrir málsaðila. Hann er jafnframt aðfararhæfur í 157 löndum, þar sem Ísland er aðili að New York samningnum um viðurkenningu og fullnustu erlendra gerðardómsúrskurða.

Af hverju gerðardómsmeðferð?

Málsmeðferð fyrir dómstólum getur tekið langan tíma, með tilheyrandi kostnaði. Algengt er að málsmeðferð fyrir héraðsdómstólum taki hið minnsta níu mánuði og enn lengri tíma þegar mál eru flókin og umfangsmikil. Að ógleymdum tveimur öðrum dómstigum. Á móti kemur að úrlausn gerðardóms liggur almennt fyrir innan sex mánaða frá því að mál hefst og er sú úrlausn endanleg. Sé ágreiningsefnið eða þeir hagsmunir sem eru í húfi þess eðlis að mikilvægt sé að fá skjóta úrlausn getur því verið mun hentugra að leita til gerðardóms með ágreininginn.

Trúnaður gerðarmeðferðar aðgreinir hana einnig skýrlega frá málsmeðferð fyrir dómstólum, en trúnaður gildir um gerðarmeðferðina og dómar eru ekki birtir opinberlega nema aðilar semji um slíkt, ólíkt því sem gengur og gerist fyrir almennum dómstólum. Málsaðilar geta því haldið ágreiningi sínum eða viðkvæmum málum leyndum. Málsmeðferð fyrir gerðardómi er þar að auki sveigjanlegri en fyrir almennum dómstólum. Aðilar geta til að mynda samið um gagnaframlagningu og sönnunarfærslu og síðast en ekki síst leiða sérfræðivitni fyrir dóminn en íslenskir dómstólar hafa ekki heimilað málsaðilum að kalla sérfræðivitni fyrir dóm. Þessu síðastnefnda atriði getur fylgt mikið kostnaðarhagræði þar sem matsgerðir og yfirmatsgerðir eru með kostnaðarsamari liðum hérlendra dómsmála.

Stjórn og framkvæmdastjóri GVÍ

    Marta Guðrún Blöndal
    Formaður
    Agla Eir Vilhjálmsdóttir
    Stjórn GVÍ
    Garðar Víðir Gunnarsson
    Stjórn GVÍ
    Halla Björgvinsdóttir
    Stjórn GVÍ
    Haraldur Ingi Birgisson
    Stjórn GVÍ
    María Guðjónsdóttir
    Framkvæmdastjóri GVÍ