Sem heildarsamtök viðskiptalífsins starfar Viðskiptaráð að hagsmunum allra sem stunda viðskipti. Það er eitt öflugasta tæki viðskiptalífsins í baráttunni fyrir úrbótum á rekstrarumhverfi fyrirtækja og bættum starfsskilyrðum með jafnræði, frjálsa samkeppni og heilbrigða viðskiptahætti að leiðarljósi. Það er trú Viðskiptaráðs að með því sé best stuðlað að hagsæld Íslendinga til framtíðar.
Einn af grundvallarþáttunum í þeirri baráttu er að efla skilning á mikilvægi frjálsræðis í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta, hagfellds skattaumhverfis og annarra þátta er miða að því að auka samkeppnishæfni Íslands. Viðskiptaráð starfrækir því málefnastarf sem ætlað er að vera uppspretta nýrra hugmynda og rökstuddra tillagna að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja hérlendis.
Með öflugri útgáfu, fundum og viðburðarhaldi hefur ráðið stuðlað að framförum í viðskiptalífinu í meira en 100 ár bæði með beinum og óbeinum hætti. Mörg af stærstu framfaraskrefum í viðskiptasögu landsins má rekja til fræja sem sáð hefur verið af Viðskiptaráði Íslands.