ATA Carnet skírteini

Viðskiptaráð hefur umsjón með útgáfu ATA Carnet skírteina á Íslandi. ATA Carnet skírteini heimilar handhafa tímabundinn útflutning á vörum og vörusýnishornum.

Handhafi ATA skírteinis greiðir hvorki tolla né önnur aðflutningsgjöld í um 80 löndum sem eiga aðild að ATA samningnum. ATA skírteini er ætlað að ferðast allan tímann með varningnum og virkar því sem einskonar vöruvegabréf. Ætlast er til að viðkomandi vörur séu fluttar til baka innan eins árs eftir notkun í einu eða fleiri löndum.

Undanfarin ár hefur Viðskiptaráð gefið út á bilinu 50-100 ATA skírteini á ári en gríðarlegur samdráttur varð á árinu 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-19. Útgefnum skírteinum hefur fjölgað lítillega á síðustu árum en á nokkuð í land með að ná sama fjölda og áður.

Útgefin ATA skírteini á árunum 2018-2023

Hvernig er sótt um ATA skírteini?

ATA skírteini eru gefin út af Viðskiptaráði Íslands. Sækja þarf um útgáfu þeirra með tveggja daga fyrirvara á sérstökum umsóknarvef fyrir skírteinin í gegnum vefslóðina ata.vi.is. Sé greitt fyrir flýtimeðferð er hægt að fá skírteini samdægurs.

Fyrir hvaða vörur þarf ATA skírteini?

Sækja má um ATA skírteini fyrir hvers kyns vörur sem flytja á tímabundið erlendis. Helstu vörutegundirnar sem fluttar hafa verið út á ATA skírteinum undanfarin ár eru m.a. kvikmyndatæki, sjávarútvegsvörur vegna sýninga, tölvur og hugbúnaður, listaverk og leikmunir, hljómflutningstæki, mæli- og rafeindatæki og fatnaður.

Hvað kostar þjónustan?

Kostnaður vegna ATA skírteina fer eftir verðmæti varanna sem fluttar eru út samkvæmt skírteininu og er metinn út frá þeim sex gjaldflokkum sem ráðið býður upp á, þá er tekið gjald fyrir flýtimeðferð og önnur aukaviðvik. Viðskiptaráð fer einnig fram á tryggingu sem nemur 50% af verðmæti varanna í formi geymslugreiðslu eða bankaábyrgðar.