Aðrir viðburðir

Á ári hverju stendur Viðskiptaráð fyrir fjölda funda og annarra viðburða. Hér gefur að líta yfirlit yfir nokkra af þeim viðburðum sem ráðið stóð fyrir á síðustu tveimur árum.

Sjálfbærniskýrsla ársins

Viðskiptaráð, Festa – miðstöð um sjálfbærni og Stjórnvísi veittu í júní 2022 viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins. Var þetta í fimmta sinn sem slíkar viðurkenningar eru veittar, en að þessu sinni voru það Lífeyrissjóður Verzlunarmanna og flugfélagiðPlay sem þóttu hafa skarað fram úr á þessu sviði.

Árið 2023 var viðurkenningin veitt í sjötta sinn. Það var Marel sem hlaut viðurkenningu í fyrra fyrir sjálfbærniskýrslu sína. Líkt og fyrri ár fjölgaði þeim skýrslum sem hlutu tilnefningu á milli ára og voru 35 skýrslur tilnefndar að þessu sinni. Fyrri handhafar viðurkenningarinnar eru Play, Lífeyrissjóður Verzlunarmanna, BYKO, Landsvirkjun, Krónan, Landsbankinn og Isavia.

Morgunfundur um samkeppnishæfni

Þann 15. júní árið 2022, stóðu Viðskiptaráð og Arion banki fyrir fundi þar sem árleg greining IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni ríkja var kynnt. Sérstakir gestir fundarins voru Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq á Íslandi, fjölluðu um niðurstöðurnar og þýðingu þeirra fyrir íslenskt viðskiptalíf. Sérstök áhersla var lögð á að ræða millilandaviðskipti og alþjóðlegar fjárfestingar.

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

Verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var upphaflega sett á laggirnar til að vekja athygli á góðum stjórnarháttum, en verkefnið felur í sér að fyrirtæki undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda.Útgáfuaðilar leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja hvetja til þess að fyrirtæki undirgangist matið. Framkvæmd matsins er í höndum Stjórnvísi, umsjónaraðila verkefnisins, en matsferlið byggist í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Fyrirtækjum sem standast matsferlið er veitt viðurkenning og gildir hún í þrjú ár nema verulegar breytingar hafi orðið á stjórn eða eignarhaldi fyrirtækisins. Viðurkenningarnar eru veittar við hátíðlega afhendingu í ágúst hvert ár, en árið 2022 hlutu sextán fyrirtæki viðurkenninguna. 

Viðskiptaráð hélt uppteknum hætti árið 2023 og veitti í samstarfi við Stjórnvísi, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland, viðurkenningar fyrir góða stjórnarhætti. Að þessu sinni voru það 18 fyrirtæki sem hlutu nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.

Morgunfundur í samstarfivið KPMG um sjálfbærni

KPMG hélt, í samstarfi við Viðskiptaráð, morgunfund þar sem rætt var um mikilvægi upplýsingagjafar um sjálfbærni í október 2022. Á fundinum var jafnframt kynnt ný alþjóðleg rannsókn KPMG á upplýsingagjöf fyrirtækja í sjálfbærni, sem varpar meaðl annars ljósi á stöðu íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegum samanburði. Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, flutti erindi á fundinum.

Námskeið um breytt regluverk á sviði umhverfismála og sjálfbærni

Viðskiptaráð, í samstarfi við Logos, stóð í mars síðastliðnum fyrir námskeiði þar sem fjallað var um þær miklu breytingar sem orðið hafa á regluverki ESB/EES á sviði umhverfismála og sjálfbærni. Mikill áhugi var á námskeiðinu, en plássin sem í boði voru seldust hratt upp.

Tölum um tilnefningarnefndir

Viðskiptaráð stóð, í samstarfi við IcelandSIF, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins, fyrir opnum morgunfundi í mars síðastliðnum þar sem tilnefninganefndir voru til umfjöllunar. Þar var fjallað um þau tækifæri og þær áskoranir sem felast í nefndunum, samanburð við Norðurlönd og margt fleira.