Bakhjarl menntunar

Frá stofnun hefur Viðskiptaráð Íslands tekið þátt í uppbyggingu íslensks menntakerfis með áherslu á hagnýta menntun á sviðum atvinnulífs, enda fátt til meiri hagsbóta fyrir viðskiptalífið en öflugt og vel menntað starfsfólk. Þessu hefur Viðskiptaráð sinnt með markvissum hætti síðustu ár og áratugi í gegnum Menntasjóð Viðskiptaráðs Íslands, sjálfseignastofnun sem starfar undir vernd og umsjón Viðskiptaráðs Íslands.

Menntasjóður VÍ

Menntasjóður VÍ hefur haft það formlega hlutverk að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að efla og bæta menntun og rannsóknir á öllum skólastigum og styðja við nýsköpun atvinnulífs. Stjórn Viðskiptaráðs myndar fulltrúaráð MVÍ og fer með æðsta vald í málefnum stofnunarinnar. Sjóðurinn er meirihlutaeigandi í Háskólanum í Reykjavík og rak Verzlunarskóla Íslands í hartnær öld.

Menntasjóður VÍ skipar tvo aðila í stjórn Háskólans í Reykjavík og fjóra aðila í háskólaráð. Fulltrúar VÍ í stjórn HR eru nú Svanhildur Hólm Valsdóttir og Tanya Zharov. Fulltrúar VÍ í háskólaráði skólans eru Ari Fenger, Brynja Baldursdóttir, Hjálmar Gíslason og Katrín Olga Jóhannesdóttir.

Viðskiptaráð skipar einnig þrjá meðlimi fulltrúaráðs Verzlunarskólans en fulltrúaráðið skipar svo skólanefnd skólans. Fulltrúar VÍ í fulltrúaráðinu eru nú þær Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Ingunn Agnes Kro og Svanhildur Hólm Valsdóttir.

  • Háskólinn í Reykjavík

Námsstyrkjasjóður Viðskiptaráðs Íslands

Hlutverk Námsstyrkjasjóðsins er að veita námsstyrki til íslenskra nemenda vegna framhaldsnáms á háskólastigi. Styrkjunum er einkum ætlað að mæta kostnaði vegna skólagjalda og rannsóknanáms. Styrkirnir eru veittir vegna náms í greinum sem tengjast atvinnulífinu og stuðla að framþróun þess.

Markmið styrkveitinganna er að stuðla að eflingu mannauðs á Íslandi með því að gera íslenskum nemendum kleift að sækja sér fjölbreytta og alþjóðlega menntun í hæsta gæðaflokki. Sjóðurinn styður þannig við hlutverk MVÍ.

Almennt eru styrkirnir veittir árlega á Viðskiptaþingi og að jafnaði hafa fjórir styrkir verið veittir hverju sinni. Árin 2022 og 2023 nam hver styrkur 1 m.kr. og heildarúthlutun sjóðsins því 8 m.kr á þessum tveimur árum. Vel á annað hundrað umsóknir bárust á árunum 2022 og 2023 frá íslenskum námsmönnum í framhaldsnámi vítt og breitt um heiminn.

Valnefnd Námsstyrkjasjóðs

Valnefnd Námsstyrkjasjóðs skipa þau dr. Ari Kristinn Jónsson, forstjóri AwareGO, dr. Daði Már Kristófersson, prófessor og varadeildarforseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, stjórnarkona og fyrrum forstjóri Actavis á Íslandi. Viðskiptaráð kann nefndinni miklar þakkir fyrir framlag hennar og störf.

Styrkþegar ársins 2022:

  • Anton Óli Richter, meistaranemi í fjármálastærðfræði við Oxford háskóla 
  • Esther Hallsdóttir, meistaranemi í opinberri stjórnsýslu við Harvard háskóla 
  • Guðrún Höskuldsdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við ETH háskóla 
  • Njáll Skarphéðinsson, meistaranemi í gervigreind við Carnegie Mellon háskóla 

Styrkþegar árið 2023 voru:

  • Gunnar Þorsteinsson, doktorsnemi í rafhlöðuverkfræði við Columbia-háskóla 
  • Hekga Kristín Ólafsdóttir, doktorsnemi í hagnýtri stærðfræði og tölfræði við Gautaborgarháskóla 
  • Ísak Valsdóttir, doktorsnemi í tölfræði við Oxford-háskóla 
  • Vigdís Gunnarsdóttir, meistaranemi í hagnýtris stærðfræði við ETH Zürich 

Framtíðarsjóður

Fyrst var úthlutað úr framtíðarsjóði, áður rannsóknarsjóði, árið 2015 með það að hlutverki að styðja við rannsóknir á sviði framþróunar menntunar og eflingar íslensks atvinnulífs. Á árunum 2017-2019 fjármagnaði svo sjóðurinn verkkeppni Viðskiptaráðs þar sem ungt fólk kom saman og vann að áskorunum framtíðar í mennta-, loftslags- og tæknimálum með aðstoð leiðbeinenda. Ekki var úthlutað úr sjóðnum á árunum 2022-2023 en næst verður úthlutað úr sjóðnum í febrúar 2024.

Valnefnd framtíðarsjóðs:

Valnefnd Framtíðarsjóðs skipa þau Andri Heiðar Kristinsson, fjárfestingastjóri hjá Frumtak Ventures, Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis og Þór Sigfússon stofnandi Sjávarklasans. Viðskiptaráð kann nefndinni miklar þakkir fyrir framlag hennar og störf.