Ávarp

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri ráðsins, skrifa:

Ari Fenger og Svanhildur Hólm ValsdóttirAri Fenger og Svanhildur Hólm Valsdóttir

Við útkomu síðustu ársskýrslu var ljóst að fram undan væru krefjandi tímar. Verðbólgan var á uppleið og var þá meiri en hún hafði mælst í heilan áratug. Heimsfaraldur og stuðningsaðgerðir stjórnvalda, ekki einungis á Íslandi heldur einnig í helstu viðskiptalöndum, höfðu ýkt eftirspurnaráhrif og ýtt undir verðhækkanir, en ekkert okkar sá þó fyrir hvað koma skyldi. 

Um sama leyti og samkomutakmörkunum var aflétt í lok febrúar 2022 réðust Rússar inn í Úkraínu.  

Margir bjuggust við að þetta stríð myndi einungis standa í nokkra daga en það hefur nú varað í tvö ár með hrikalegum afleiðingum. Fyrst og fremst fyrir Úkraínumenn sjálfa, en óbein áhrif stríðsins urðu einnig orðið mikil um allan heim. Viðskiptabann á Rússland og Hvíta-Rússland hafði áhrif á framboð ýmiskonar hrávöru, sem og truflanir á framleiðslu og erfiðleikar við að flytja vöru frá Úkraínu. Orkuverð á meginlandinu fór upp úr öllu valdi og verðbólga mældist hærri en hún hafði gert í áratugi. Leiðtogar ýmissa Evrópuríkja höfðu gegnum árin búið svo um hnútana að Rússland var orðin meiriháttar breyta í hagkerfum þeirra og hversu háð ríki Evrópu voru rússneskri olíu og gasi reyndist þeim afar dýrt. Þótt Ísland hafi verið í mun betri stöðu með sinn orkumarkað er það ekki ónæmt fyrir röskun á erlendum orkumörkuðum og afleiddum áhrifum hás orkuverðs í viðskiptalöndum okkar. Í lok ársins 2022 var enda orðið nokkuð ljóst að þær vonir sem við létum í ljós um verðbólguþróun við útgáfu síðustu ársskýrslu höfðu verið fullbjartsýnar. Kjarasamningar snemma árs 2023 gerðu þær svo að engu.  

Hækkanir rauði þráðurinn

Sennilega eru hækkanir lykilorð síðustu tveggja ára. Verðhækkanir, launahækkanir og vaxtahækkanir. Skammtímasamningar sem gerðir voru fyrir ári hafa reynst íslensku atvinnulífi þungir í skauti. Launavísitalan hækkaði um tæp 10% á síðasta ári og sker Ísland sig úr í samanburði við löndin í kringum okkur nú sem endranær þegar kemur að launahækkunum. Kaupmáttur óx einungis um 1%, en það má telja gott í samanburði við löndin í kringum okkur, þar sem launafólk hefur horft upp á samdrátt í kaupmætti. Mikil spenna hefur verið á vinnumarkaði, þar sem atvinnuleysi minnkaði hratt eftir faraldurinn þegar ferðaþjónustan tók við sér á ný, en mikil eftirspurn eftir starfsfólki hefur ekki verið bundin við greinar ferðaþjónustunnar. Ef horft er til launahækkana frá og með lífskjarasamningunum árið 2019, hafa laun þjónustu-, sölu-, og afgreiðslufólks og verkafólks hækkað mest eða um rúm 50%. Laun stjórnenda hafa hækkað minnst, um 28%, og sérfræðinga um rúm 34%. Á þessu tímabili hefur hið opinbera leitt launaþróun og gert fyrirtækjum á almennum markaði erfitt fyrir, þar sem ekki þarf einungis að keppa við vinnuveitanda sem býður oft og tíðum betri laun, heldur einnig fullkomið starfsöryggi og styttri vinnutíma. 

Það er augljóst að þetta er þróun sem er ekki sjálfbær og vonandi leiða kjaraviðræður sem nú standa yfir til annarrar og betri niðurstöðu, bæði á almenna og opinbera markaðnum. Raunverulegar kjarabætur felast í því að ná tökum á verðbólgunni, skapa skilyrði til vaxtalækkana og stöðugleika í efnahagsmálum. Þar þarf einnig að horfa til þess að þótt sú stefna, að leggja alla áherslu á að hækka lægstu laun, hafi verið rekin af góðum hug, getur hún haft neikvæð áhrif á samfélagsgerðina. Menntun verður að meta til launa því verðmætasköpun framtíðarinnar verður ekki einungis knúin áfram af mannaflafrekum lágframleiðslugreinum.  

Skilvirkni og verðmætasköpun

Skilvirkni er hugtak sem lengi hefur verið Viðskiptaráði hugleikið. Einfaldara regluverk og skilvirk framkvæmd skiptir miklu máli fyrir samfélagið allt. Löng bið eftir virkjunarleyfi, orkuskortur og lítill fyrirsjáanleiki um framboð orku hamlar atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun líkt og fjallað var um á Viðskiptaþingi ársins 2023.  

Gullhúðun með íþyngjandi innleiðingu EES-reglna leggur óþarfa byrðar á íslenskt atvinnulíf og gerir landið að verri kosti fyrir erlenda fjárfestingu. Glöggt dæmi um slíka íþyngjandi innleiðingu er að finna í skýrslu sem Viðskiptaráð gaf út í fyrrasumar undir heitinu Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði. Þar kemur fram að árlegur umframkostnaður fyrirtækja vegna innleiðingar á sjálfbærniregluverki ESB sé um tveir milljarðar. Það er ánægjulegt að í kjölfar skýrslunnar hafa stjórnvöld tekið við sér. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið lét vinna úttekt í vetur á íþyngjandi innleiðingu á málasviðum þess og kom í ljós að frá 2010-2022 höfðu rúmlega fjörutíu prósent EES-gerða verið innleidd með íþyngjandi hætti. Utanríkisráðherra skipaði svo í janúar starfshóp, sem lögfræðingur Viðskiptaráðs á sæti í. Hópurinn hefur það hlutverk að leggja til úrbætur vegna gullhúðunarmála og var hans fyrsta verk að óska eftir ábendingum um slík mál í samráðsgátt stjórnvalda. Það er von okkar að þar með hafi verið stigið öruggt skref í að vinda ofan af þeim mistökum sem stjórnvöld hafa gert við innleiðingu EES-reglna og girt verði fyrir frekari gyllingu. 

Að lokum

Viðskiptaráð hefur staðið vörð um viðskiptafrelsi og veitt hinu opinbera aðhald í meira en hundrað ár. Það er heiður að fá að taka þátt í slíku starfi og fá að leggja sitt af mörkum til að viðhalda og efla verðmætasköpun og samkeppnishæfni Íslands. Við þökkum aðildarfélögum ráðsins fyrir gott samstarf og óskum nýrri stjórn og nýjum formanni heilla í störfum sínum á næstu árum. 

Ari Fenger
formaður Viðskiptaráðs Íslands

Svanhildur Hólm Valsdóttir
framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands