Ávarp

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri ráðsins, skrifa:

Ari Fenger og Svanhildur Hólm ValsdóttirAri Fenger og Svanhildur Hólm Valsdóttir

Síðastliðin tvö ár hefur heimsfaraldur kórónuveiru verið ein stærsta áskorun atvinnulífsins. Frá upphafi hefur skipt máli að eiga stöðugt samtal við stjórnvöld um viðbrögð til að milda höggið á atvinnustarfsemina og tryggja öfluga viðspyrnu. Að mörgu leyti hefur það gengið eftir. Íslenskt efnahagslíf tók við sér strax á síðasta ári og gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti. 

Þó eru enn blikur á lofti. Verðbólga mælist nú meiri en hún hefur gert í áratug. Þar vegur húsnæðisliðurinn þungt en fleira kemur til. Hærri flutningskostnaður, mikil eftirspurn eftir ýmsum vörum, hrávöruskortur og brestir í aðfangakeðjum eru alþjóðlegt vandamál sem veldur hækkandi verði. Stuðningsúrræði stjórnvalda vegna faraldursins víða um heim eru einnig talin hafa ýkt eftirspurnaráhrif og þar með ýtt undir verðhækkanir.

Vonir standa þó til þess að einungis sé um gegnumstreymisverðbólgu að ræða þannig að draga taki úr þrýstingi á síðari hluta ársins. Fram undan eru þó kjarasamningar og full ástæða til að hvetja aðila vinnumarkaðarins til að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að íslenskt hagkerfi lendi á ný í klóm víxlverkunar verðbólgu og launahækkana. 

Ísland í alþjóðlegri samkeppni

Framtíðarlinsum Viðskiptaráðs, sem kynntar voru á aðalfundi 2018, var lokað á Viðskiptaþingi ársins 2021 þar sem alþjóðageirinn var í forgrunni. Um árabil hefur Viðskiptaráð ýtt á og fjallað um að skapa þurfi grundvöll fyrir útflutningsgreinar til að dafna. Helst eru tækifærin til staðar í greinum sem ekki eru sérstaklega háðar íslenskum staðháttum og takmörkuðum auðlindum, heldur geta starfað hvar sem er í heiminum. Sá geiri er jafnan kallaður alþjóðageirinn og er í einföldustu mynd sá útflutningur sem telst ekki til landbúnaðar, stóriðju, sjávarútvegs eða ferðaþjónustu, en þær greinar flokkast undir auðlindageirann. Heimsfaraldurinn hefur einmitt dregið glöggt fram hversu mikilvægt er að fjölga stoðum verðmætasköpunar á Íslandi og beina sjónum að háframleiðnigreinum sem eru síður háðar duttlungum náttúrunnar.

Samhliða Viðskiptaþingi gaf ráðið út skýrsluna Hugsum stærra: Ísland í alþjóðasamkeppni, þar sem fjallað er um hvernig alþjóðageirinn getur byggt undir meiri hagvöxt, fjölbreyttari útflutning, aukinn kaupmátt og verðmætari störf. Síðastliðinn áratug hefur árlegur vöxtur útflutningsverðmæta í alþjóðageiranum verið um 3%. Um þrisvar sinnum hraðari vöxt hefði þurft til að fylgja markmiðum sem kynnt voru árið 2012 í skýrslu McKinsey, Charting a Growth Path for Iceland, en þar var lögð rík áhersla á að öflugur alþjóðageiri væri forsenda sjálfbærs hagvaxtar til lengri tíma.

Í skýrslunni sem kom út í fyrravor er bent á ýmsar ástæður þess að sá árangur sem vænta mátti hafi ekki enn náðst. Meðal annars er nefnt að fjöldi vísbendinga séu um að regluverk hér á landi sé meira íþyngjandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Skattar séu með því hæsta sem gerist og skattkerfið ekki nægilega skilvirkt. Hömlur á erlenda fjárfestingu séu þær næstmestu meðal þróaðra ríkja og fjármögnunarumhverfi í heild sinni dragi úr samkeppnishæfni landsins. 

Í skýrslunni eru settar fram skýrar tillögur til úrbóta á sviðum sem tengjast rekstrarumhverfi, mannauði og fjárfestingum. Þótt stjórnvöld hafi stigið skref í rétta átt á undanförnum árum, til dæmis hvað varðar aukinn stuðning við nýsköpun og hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar, þarf að gera mun betur til að ná nauðsynlegum markmiðum um verðmætasköpun og framleiðni til að standa undir framtíðarþörfum samfélagsins.

Öflugra og fjölbreyttara menntakerfi

Menntamál hafa alltaf verið Viðskiptaráði Íslands hugleikin, enda er góð menntun efnahagsmál. Þáttur í því að auka styrk alþjóðageirans er að leggja meiri áherslu á raungreina- og tæknimenntun á öllum skólastigum, auka sveigjanleika og nýsköpun í skólakerfinu og styðja við uppbyggingu alþjóðlegs náms. Ljóst er að náttúruleg fjölgun íbúa á vinnualdri hérlendis annar ekki þörfum atvinnulífsins næstu árin og auðvelda þarf fyrirtækjum enn frekar að laða til sín erlenda sérfræðinga. Liður í því er greitt aðgengi að öflugu menntakerfi þar sem kennt er á ensku. Á Íslandi starfa tveir alþjóðlegir grunnskólar sem anna ekki eftirspurn og einungis einn framhaldsskóli býður upp á nám á alþjóðlegri braut. Í ljósi gilda og hlutverks Viðskiptaráðs Íslands gagnvart atvinnulífinu er verðugt viðfangsefni að taka til skoðunar hvernig ráðið geti stutt við frekari uppbyggingu alþjóðlegs náms á Íslandi.

Verðmætasköpun er forsenda velferðar

Þær umbætur sem fyrirtæki í alþjóðageiranum hafa kallað eftir nýtast ekki þeim einum. Skilvirkt regluverk og samkeppnishæft rekstrarumhverfi er hagsmunamál alls atvinnulífsins og um leið almennings, eins og Viðskiptaráð vakti athygli á í málefnastarfi sínu fyrir alþingiskosningar síðastliðið haust. Tillögur ráðsins voru kynntar forystufólki allra framboða undir yfirskriftinni Verðmætasköpun er forsenda velferðar, þar sem sérstök áhersla var lögð á að til þess að standa megi undir framúrskarandi lífskjörum á Íslandi þurfi að gefa atvinnulífinu rými til að vaxa og þróast. 

Hafa þarf í huga að tæplega þrjátíu prósent vinnuaflsins vinna hjá ríki og sveitarfélögum og ríkið eitt ráðstafar um það bil þriðju hverri krónu sem er varið hér á landi. Hluti vaxtarmöguleika atvinnulífsins felst þar af leiðandi í því að bæta nýtingu opinberra fjármuna og draga úr umsvifum hins opinbera. Í því er ekki fólgin tillaga um að draga úr þjónustu, heldur að veita hana með öðrum hætti með því að auka einkarekstur sem víðast í starfsemi sem greidd er af skattfé, ekki síst í heilbrigðis- og menntakerfinu. Auka má samkeppni og tryggja valfrelsi fólks með því að láta fé fylgja einstaklingum en ekki stofnunum. Þannig næst einnig betri yfirsýn yfir þá þjónustu sem hið opinbera kaupir fyrir hönd skattgreiðenda, eins og bent er á í umfjöllun Viðskiptaráðs um stöðuheilbrigðiskerfisins og framtíðarhorfursem birt var í ágúst síðastliðnum.

Bjartari tíð

Fram undan eru bjartari tímar þegar heimsfaraldrinum léttir. Samkomutakmarkanir og sóttvarnir hafa sett mark sitt á samfélagið allt og þar er starf Viðskiptaráðs Íslands ekki undanskilið. Fyrra starfsár stjórnar voru allir fundir fjarfundir nema þrír og þótt hlutfallið sé mun betra síðara árið var allt viðburðahald í járnum. Stærri viðburðir voru því sendir út í streymi og var það síðasta ákvörðun stjórnarinnar að fresta Viðskiptaþingi 2022 til loka maímánaðar til þess að freista þess að halda hefðbundið þing fyrir fullum sal af fólki. 

Við þökkum aðildarfélögum gjöfult og gott samstarf á krefjandi tímum. Það er einlæg trú okkar að saman getum við sem myndum Viðskiptaráð Íslands áfram stutt og eflt íslenskt viðskiptalíf - öllum til heilla.

Ari Fenger
formaður Viðskiptaráðs Íslands

Svanhildur Hólm Valsdóttir
framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands