Viðskiptaþing 2020 & Viðskiptaþing 2021

Einn af föstu punktunum í starfsemi Viðskiptaráðs er hið árlega Viðskiptaþing, sem jafnframt er bæði stærsti viðburður ráðsins og ein fjölsóttasta samkoma íslensks viðskiptalífs.

Viðskiptaþing 2020: Á grænu ljósi

Viðskiptaþing 2020 fór fram þann 13. febrúar 2020 undir yfirskriftinni Á grænu ljósi - Fjárfestingar og framfarir án fótspors. Á þinginu var sjónum beint að því hvernig viðskiptalífið ber hitann og þungann af því að knýja fram nýsköpun og framfarir í umhverfismálum, m.a. í gegnum grænar fjárfestingar og endurhugsun á allri virðiskeðjunni.

Framsögufólks þingsins voru Roelfien Kuijpers, yfirmaður ábyrgra fjárfestinga og stefnumótandi tengsla hjá DWS Group, Klemens Hjartar, meðeigandi McKinsey & Company, Sasja Beslik, forstöðumaður sjálfbærra fjárfestinga hjá Bank J. Safra Sarasin, Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fossa markaða í Stokkhólmi og Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum. Þá flutti forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir ávarp auk þess sem Katrín Olga Jóhannesdóttir hélt kveðjuræðu er hún lét af embætti formanns Viðskiptaráðs og afhenti Ara Fenger kyndilinn. Fundarstjóri var Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Málefnamyndbönd

Tvö málefnamyndbönd voru sýnd á þinginu. Annað myndbandið fjallaði um UFS (e. ESG) leiðbeiningar og mikilvægi skýrslugjafar en Viðskiptaráð Íslands hafði þá gefið út UFS leiðbeiningar í íslenskri þýðingu í samstarfi við Nasdaq, Festu, IcelandSIF og Staðlaráð Íslands.

UFS leiðbeiningar

Viðskiptaráð Íslands í samstarfi við Nasdaq, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, IcelandSIF og Staðlaráð Íslands - Íslenskir staðlar hefur gefið út UFS leiðbeiningar í íslenskri þýðingu. UFS (á ensku; ESG) stendur fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti en leiðbeiningarnar fjalla um það hvernig fyrirtæki geta með markmiðasetningu og upplýsingagjöf sýnt samfélagslega ábyrgð í verki. Hér má nálgast leiðbeiningarnar: https://www.vi.is/skyrslur/ufs-leidbeiningar-gefnar-ut

Posted by Viðskiptaráð Íslands on Thursday, February 13, 2020

Síðara myndbandið fjallaði um grænar fjárfestingar og tækifærin á Íslandi.

Fjárfestingar á grænu ljósi

Viðskiptaþing 2020 bar yfirskriftina Á grænu ljósi - fjárfestingar og framfarir án fótspors. Þingið fjallaði um það hvernig viðskiptalífið ber hitann og þungann af því að knýja fram nýsköpun og framfarir í umhverfismálum, m.a. í gegnum grænar fjárfestingar og endurhugsun á allri virðiskeðjunni. #viðskiptaþing

Posted by Viðskiptaráð Íslands on Wednesday, February 12, 2020

Viðskiptaþing 2021: Hugsum stærra – Ísland í alþjóðasamkeppni

Frá undirbúningi Viðskiptaþings 2021Frá undirbúningi Viðskiptaþings 2021

Viðskiptaþing ársins 2021 fór fram í vefútsendingu sökum gildandi samkomutakmarkana.

Á þinginu var fjallað um Ísland í alþjóðasamkeppni. Um 500 milljarða króna vantar í dag upp á til að metnaðarfull markmið um útflutningsdrifinn hagvöxt sem settar voru fyrir áratug gangi eftir. Þörfin fyrir útflutningsvöxt á breiðum grunni alþjóðageirans hefur sjaldan verið jafn mikil. Margt hefur þróast til betri vegar en miklu meira þarf til – við þurfum að hugsa stærra.

Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Ara Fenger, formann Viðskiptaráðs Íslands. Sveinn Sölvason fjármálastjóri Össurar og formaður alþjóðahóps Viðskiptaráðs talaði um brýnustu verkefnin til að efla vöxt og gera íslensk fyrirtæki hæfari í alþjóðlegri samkeppni. Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marels á Íslandi, Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech töluðu um áskoranir og sóknarfæri íslenskra fyrirtækja og settu fram óskir sínar til næstu ríkisstjórnar.

Samhliða Viðskiptaþingi gaf Viðskiptaráð út skýrsluna Hugsum stærra: Ísland í alþjóðsamkeppni. Skýrslan fjallar um alþjóðageirann og hvernig hann getur byggt undir meiri hagvöxt, fjölbreyttari útflutning, aukinn kaupmátt og verðmæt störf. Árlegur vöxtur útflutningsverðmæta í alþjóðageiranum hefur verið tæplega 3% síðasta áratug, sem er allt of lítið. Til samanburðar hefði geirinn þurft að vaxa meira en þrefalt hraðar til að fylgja markmiðum skýrslu McKinsey, Charting a Growth Path for Iceland, eða um 10% á ári. Tillögur alþjóðahóps Viðskiptaráðs miða að því að breyta þessari þróun.