Peningamálafundir 2020 & 2021

Í nóvember ár hvert stendur Viðskiptaráð fyrir peningamálafundi þar sem seðlabankastjóri fer yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og umræður fara fram í kjölfarið. Leitast er við að varpa ljósi á þau atriði í peningamálum og annarri hagstjórn sem helst standa viðskiptalífinu fyrir þrifum á ári hverju.

Peningamálafundur 2020

Líkt og svo margt fleira var fundur ársins 2020 með breyttu sniðu en fór hann fram í beinu streymi og hafa aldrei jafn margir fylgst með fundinum. Yfirskrift fundarins var „Á Seðlabankinn að grípa inn í markaði?“ en með því var vísað til umfangsmikilla gjaldeyrisinngripa Seðlabankans og boðaðra kaupa bankans á ríkisskuldabréfum sem þegar á hólminn var komið reyndust minni en reiknað var með. Formaður Viðskiptaráðs ávarpaði fundinn og seðlabankastjóri flutti erindi og stöðu og horfur í peningamálum. Á fundinum voru einnig sýnd innslög þar sem félagar Viðskiptaráðs viðruðu sín sjónarmið um efni fundarins og þróun peningamála almennt. Loks stýrði Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri, umræðum með Ernu Björg Sverrisdóttur, aðalhagfræðingi Arion banka, og Gunnari Jakobssyni, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika.

Peningamálafundur 2021

Árið 2021 var fundurinn aftur haldinn í beinu streymi á Hótel Nordica. Nú var umræðuefnið hvort að vinnumarkaðurinn væri týndi hlekkurinn í hagstjórninni og ynni gegn því að ríkið og seðlabankinn gætu stuðlað að verðstöðugleika. Ávarp formanns og erindi seðlabankastjóra voru á sínum stað auk innslaga með sýn félaga á þessi mál. Í pallborðsumræðum voru svo Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. Umræðurnar voru nokkuð fjörugar en þó virtust allir sammála að hægt væri að gera meira til að stuðla að auknum stöðugleika.

Raddir viðskiptalífsins á Peningamálafundi 2021