Af þeim nefndum og hópum sem starfandi hafa verið á síðustu misserum má nefna eftirfarandi:
Nefndir og samstarfsverkefni
Viðskiptaráð á fulltrúa í margvíslegum nefndum, starfs- og stýrihópum og nýtir þau tækifæri til að beita sér fyrir hagsmunum viðskiptalífsins. Í allri slíkri vinnu leitar ráðið til aðildarfélaga sem eiga hagsmuna að gæta.
Ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur
Fulltrúi Viðskiptaráðs á sæti í ráðgjafarnefnd forsætisráðuneytisins um opinberar eftirlitsreglur. Nefndinni er ætlað að vinna að aukinni hagkvæmni og skilvirkni í opinberu eftirliti. Í vinnu sinni hefur nefndin það að leiðarljósi að eftirlit eigi að ná markmiðum sínum án þess að íþyngja einstaklingum og fyrirtækjum meira en nauðsyn er og án þess að það takmarki athafnafrelsi umfram það sem almannahagsmunir krefjast.
Loftslagsráð
Fulltrúi Viðskiptaráðs situr í Loftslagsráði á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Loftslagsráð hefur það meginhlutverk að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum.
- Sjá nánar: Vefsíða Loftslagsráðs
Grænvangur
Fulltrúi Viðskiptaráðs situr í Grænvangi, samstarfsvettvangi um loftslagsmál og grænar lausnir. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040.
- Sjá nánar: Vefsíða Grænvangs
Greiðsluráð
Fulltrúi Viðskiptaráðs á sæti í Greiðsluráði sem tók til starfa árið 2019. Greiðsluráð er samráðsvettvangur stjórnvalda, markaðsaðila og annarra haghafa um málefni greiðslumiðlunar og fjármálainnviða í víðum skilningi. Markmið ráðsins er að stuðla að viðeigandi undirbyggingu stefnumótunar í málaflokknum hér á landi með sjónarmið um öryggi, virkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Fyrsta verkefnið ráðsins er að kanna hvernig stuðla megi að aukinni hagræðingu í greiðslumiðlun í þágu neytenda og fyrirtækja.
Auk ofangreindra ráða og hópa hefur Viðskiptaráð einnig tilnefnt fulltrúa í European Corporate Governance Network og Nordic Corporate Governance Committee, höfundarréttarráð, reikningsskilaráð og þannig mætti áfram telja.