Hlutverk og stjórnskipulag

Allt frá stofnun Viðskiptaráðs Íslands árið 1917 hefur megintilgangur ráðsins ætíð verið að gæta hagsmuna viðskiptalífsins. Sú áhersla byggist á þeirri trú ráðsins að heilbrigt og kröftugt atvinnulíf sé forsenda framfara og bættra lífskjara hér á landi.

Viðskiptaráð og þau sem að því standa telja að verðmætasköpun sem byggir undir velsæld lands og þjóðar fari fram í grósku viðskiptalífsins.

Margt hefur breyst á síðustu 105 árum og í dag starfar ráðið á enn breiðari grunni en áður - sem heildarsamtök íslenskra fyrirtækja. Grunnmarkmiðið hefur þó staðist tímans tönn; að vinna að bættum rekstrarskilyrðum atvinnulífsins og skapa þannig grundvöll fyrir aukna verðmætasköpun og bætt lífskjör á Íslandi.

Í lögum Viðskiptaráðs segir að ráðið skuli:

  1. Vera vettvangur fyrir nýjar hugmyndir, opnar umræður og skoðanaskipti um framfaramál íslensks atvinnulífs.
  2. Stuðla að málefnalegum umræðum og aukinni samvinnu milli stjórnvalda, atvinnulífsins og annarra hagsmunaaðila um mótun framtíðarstefnu í efnahagsmálum og mikilvægi verðmætasköpunar einkageirans.
  3. Vinna að auknum viðskiptatengslum milli Íslands og annarra ríkja, veita erlendum aðilum upplýsingar um viðskipti við Ísland og vera fulltrúi íslensks viðskiptalífs gagnvart erlendum viðskiptaráðum og öðrum erlendum aðilum á starfssviði sínu.
  4. Stuðla að aukinni þekkingu, menntun, rannsóknum og nýsköpun innan atvinnulífsins og reka starfsemi tengda þessu markmiði ef svo ber undir.
  5. Vinna að aukinni framleiðni, virkri samkeppni og hagfelldum fjárfestingarskilyrðum á öllum sviðum efnahagslífsins.
  6. Vinna gegn útþenslu hins opinbera og aukinni skattheimtu á kostnað atvinnulífsins.

Viðskiptaráð vinnur að þessum markmiðum með fjölbreyttum hætti. Þar ber helst að nefna öflugt málefnastarf og stefnumörkun í efnahagsmálum, beina hagsmunagæslu viðskiptalífsins og eflingu tengsla innan þess, stuðning við uppbyggingu menntunar og margþætt framlag til aukinnar ábyrgðar og gagnsæis í viðskiptum.

Starfsemi Viðskiptaráðs

Segja má að dagleg starfsemi Viðskiptaráðs Íslands skiptist í eftirfarandi meginsvið:

1. Málefnastarf
2. Málsvarastarf
3. Menntamál
4. Tengslavettvangur
5. Upplýsingar og þjónusta

Nánar er fjallað um þessa flokka í skýrslunni.

Stjórnskipulag

Öll fyrirtæki, samtök fyrirtækja, félög og einstaklingar sem reka viðskipti á samkeppnisgrundvelli geta átt aðild að Viðskiptaráði.

Stjórn Viðskiptaráðs fer með æðsta vald í málefnum ráðsins. Í stjórn sitja 38 einstaklingar að meðtöldum formanni. Kosið er til stjórnar á tveggja ára fresti og eru allir aðildarfélagar ráðsins kjörgengir. Í kjölfar stjórnarkjörs hverju sinni kýs stjórnin sex einstaklinga sem, auk formanns, mynda sérstaka framkvæmdastjórn sem stýrir daglegum rekstri ráðsins.

Framkvæmdastjórn VÍ skipar sömuleiðis stjórn Menntasjóðs Viðskiptaráðs (MVÍ) en stjórn MVÍ stýrir menntastarfsemi ráðsins. Undir þá starfsemi falla styrkveitingar til náms, rannsókna, viðburða og annarra verkefna sem efla íslenskt menntakerfi. Auk þessa heldur MVÍ utan um meirihlutaeign í Háskólanum í Reykjavík og tilnefnir einstaklinga til kjörs í stjórn HR og Háskólaráð HR í samræmi við samþykktir skólans. Þá tilnefnir stjórn MVÍ einnig þriðjung meðlima fulltrúaráðs Verzlunarskóla Íslands.

Hjá Viðskiptaráði starfar sjálfstæð gerðardómsstofnun, Gerðardómur Viðskiptaráðs Íslands (GVÍ). GVÍ er vettvangur úrlausnar deilumála, þar sem aðilar geta fengið leyst úr ágreiningi með skjótum og öruggum hætti.

Innan vébanda Viðskiptaráðs starfa 15 millilandaráð. Hvert og eitt millilandaráð hefur sjálfstæða stjórn og mótar eigin áherslur en forstöðumaður alþjóðasviðs Viðskiptaráðs heldur utan um starfsemi þeirra. Meginmarkmið millilandaráða felst í eflingu tvíhliða tengsla Íslands við löndin sem ráðin tengjast.