Aðrir viðburðir

Á ári hverju stendur Viðskiptaráð fyrir fjölda funda og annarra viðburða. Hér gefur að líta yfirlit yfir nokkra af þeim viðburðum sem ráðið stóð fyrir á síðustu tveimur árum.

Örfundir í heimsfaraldri

Á fyrstu vikum heimsfaraldurs COVID-19 stóð Viðskiptaráð fyrir stuttum morgunfundum á föstudögum þar sem framkvæmdastjóri og hagfræðingur fóru yfir vinnu ráðsins á þessum undarlegu tímum og þróun efnahagsmála um heim allan. Á fundina komu einnig stundum góðir gestir, þar með taldir Björn Zoega forstjóri Karolinska sjúkahússins, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka . Þessu var svo haldið áfram, en þó með óreglubundnum hætti, áfram næstu mánuði og má segja að þessir fundir séu upphafið af Föstudagskaffi Viðskiptaráðs sem fer í loftið annan hvern föstudagsmorgun.

Iceland is open

Í júní árið 2020 stóð Viðskiptaráð, ásamt millilandaráðunum fimmtán, fyrir fundi undir yfirskriftinni “Iceland is open”, þar sem svör voru veitt við áleitnum spurningum í kjölfar þess að tekin var upp skimun fyrir erlenda ferðamenn á Keflavíkurflugvelli í stað þess að þurfa sitja í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, flutti opnunarávarp og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fjallaði um næstu skref í baráttunni við veiruna og leiðir til þess að slaka á ferðahömlum. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, fjallaði um lykilskref sem Ísland kæmi á framfæri við heimsbyggðina í faraldrinum og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, fjallaði um starfsemi félagsins og áskoranir í tengslum við faraldurinn. Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði fundinum. Að lokum fóru fram pallborðsumræður þar sem gestum fundarins gafst færi á að spyrja frummælendur spjörunum úr.

Live: Iceland is open

Live: Iceland is open

Posted by Viðskiptaráð Íslands on Monday, June 22, 2020

Samfélagsskýrsla ársins

Frá árinu 2018 hafa Viðskiptaráð, Stjórnvísi og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð veitt verðlaun fyrir bestu samfélagsskýrslur íslenskra fyrirtækja.

Verðlaun ársins 2020 voru veitt samfélagsskýrslu Krónunnar sem þótti standa upp úr í hópi 19 tilnefndra  skýrslna. Viðurkenningin var afhent við hátíðarlega athöfn þann 9. júní.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun og formaður dómnefndar, Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu.

Árið 2021 þóttu BYKO og Landsvirkjun hafa kynnt eftirtektarverðustu samfélagsskýrslurnar. Fulltrúum fyrirtækjanna tveggja voru afhentar viðurkenningar þess efnis í Húsi atvinnulífsins þann 8. júní.

Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Sigurður Pálsson, forstjóri Byko og Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu.

Fyrri verðlaunahafar eru Landsbankinn (2018) og Isavia (2019).

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum

Verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum var upphaflega sett á laggirnar til að vekja athygli á góðum stjórnarháttum, en verkefnið felur í sér að fyrirtæki undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda. Útgáfuaðilar leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja hvetja til þess að fyrirtæki undirgangist matið. Framkvæmd matsins er í höndum Stjórnvísi, umsjónaraðila verkefnisins, en matsferlið byggit í meginatriðum á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Fyrirtækjum sem standast matsferlið er veitt viðurkenning þar að lútandi og gildir hún í þrjú ár nema verulegar breytingar hafi orðið á stjórn eða eignarhaldi fyrirtækisins. Viðurkenningarnar eru veittar við hátíðlega afhendingu í ágúst hvert ár, en nú síðast hlutu fimmtán fyrirtæki viðurkenninguna.

Kynin og vinnustaðurinn

Viðskiptaráð, í samstarfi við Empower, Gallup og Háskóla Íslands framkvæmdu könnun á stöðu, upplifun og líðan starfsfólks í fyrirtækjum á Íslandi þar sem sérstaklega var horft til þess hvort greina mætti mun eftir kyni. Lagðar voru spurningar fyrir starfsfólk í um 200 fyrirtækjum sem eiga aðild að Viðskiptaráði. Einnig var staða kynjanna í stjórnunarlögum fyrirtækjanna tekin saman til þess að miðla því hvort og þá hvernig hallaði á eftir kynjum.

Niðurstöðurnar voru kynntar á opnum fundi þann 22. júní á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum fjölluðu Þórey Vilhjálmsdóttir Proppe, stofnandi Empower, Ólafur Elínarson sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup og Þorgerður J. Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við HÍ, um niðurstöður rannsóknarinnar. Þá fjallaði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar um átak og árangur Landsvirkjunar í jafnréttismálum.

Fundur um heilbrigðismál

Þann 3. september 2021 stóð Viðskiptaráð fyrir opnum fundi um heilbrigðismál undir yfirskriftinni Alltaf á þolmörkum. Gestir fundarins voru þau Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins og Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar Höfða. Ari Fenger, formaður VÍ, opnaði fundinn og Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri VÍ, stýrði umræðum.

Kosningafundur Viðskiptaráðs

Í aðdraganda alþingiskosninga 25. september 2021 stóð Viðskiptaráð fyrir fundi með fulltrúum stjórnmálaflokka. Fundurinn var haldinn á Nauthóli að morgni miðvikudagsins 15. september. Fulltrúum þeirra flokka sem mælst hafa með yfir 5% fylgi í könnunum síðustu vikna var boðin þátttaka á fundinum og þáðu frambjóðendur níu flokka boðið. Á fundinum, sem var einungis opinn aðildarfélögum Viðskiptaráðs, gafst fulltrúum íslensks viðskiptalífs færi á að eiga beint og milliliðalaust samtal við ofangreinda frambjóðendur. Samhliða fundinum birti Viðskiptaráð yfirlit yfir mikilvæg áhersluatriði að mati ráðsins undir yfirskriftinni Verðmætasköpun er forsenda velferðar.

Næstum allt sem þú vilt vita um fjárfestingar

Í tilefni af alþjóðlegri fjárfestaviku (e. World Investor Week) stóðu Viðskiptaráð, Háskólinn í Reykjavík, Nasdaq og Samtök fjármálafyrirtækja fyrir afar vel sóttum og fróðlegum fræðslufundi um fjárfestingar undir yfirskriftinni Næstum allt sem þú vilt vita um fjárfestingar. Fundurinn var haldinn í HR þann 8. október 2021.

Markmiðið fundarins var að vekja ungt fólk til umhugsunar um fjárfestingar. Fyrirlesarar á fundinum voru þau Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, Rósa Kristinsdóttir, meðstofnandi FORTUNA Invest, Már Wolfgang Mixa, lektor við HR, og Arnaldur Þór Guðmundsson, formaður Ungra fjárfesta. Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, hélt opnunarávarp og stýrði umræðum í lok fundarins.